Lífið sem leikhús

 Lífið sem leikhús 

ScreenHunter_07 Apr. 13 19.15

 

Vaknaði við yndælis kaffi ilm. Betri helmingurinn hafði lagt á borð og farið í bakaríið og þar að auki farið í blómabúðina og keypt blóm. Ég settist við morgunverðarborðið í silkisloppnum eins og fínar frúr gera og bauð góðan dag með spariröddinni. Dáðist af því sem fyrir augu bar og úthellti hóli. Eftir 3 rækjusalatsbolluna var ég alveg hætt að vera eitthvað fín. Komin með blett i sloppinn og búin að ropa eins og togarasjómaður. Verð að vanda mig næst.

 

            Eftir að vera búin að taka saman sunddótið var skroppið í Laugaskarðlaugina. Hittum Hemma Gunn í pottinum og hann sagði okkur að við værum nú aldeilis heppin að eiga heima í Hveragerði, hér væri svo góð laug. Og hvort við færum ekki á hverjum degi? Sá skárri, alltaf svo kurteis og vel upp alin laug  því að við værum fastagestir. Ég rétt gat haldið andlitinu og nikkað sammála ( ég er svo góð eiginkona ) . Ómögulegt að vera með uppsteit í heitapottinum. Við höfum líka heyrt að ef fólk hagi sér ekki almennilega þar þá sé því úthýst ( ef einhver kemur á gegnsærri sundskýlu í laugina ).

           

            Fórum svo og versluðum í matinn og ég var auðvitað með vesen og fór á kassann hjá súludansmeynni. Þegar hún er að vinna fer ég alltaf til hennar. Hún er bæði glöð og virkar hamingjusöm með vinnuna sína ( sjálfsagt vön að leika að vera glöð). Annað en krakkarnir sem ég verð þunglynd á að „leyfa“ að afgreiða mig. Þau dæsa á mig ef ég er of lengi að setja í pokana mína. Ég myndi gjarnan vilja hafa fólk á besta aldri í afgeiðslustörfum. Það skilur mig svo vel eða „leikur“ að því leiðist ég ekki.

 

     

Þegar heim var komið, henti ég mér upp í sófa og nennti ekki að vera neinn nema ég sjálf. Það er gott að hafa köttin með í svoleiðis verkefnum.

ScreenHunter_08 Apr. 13 19.15

Kveikti á sjónvarpinu til öryggis og þóttist vera að horfa á fréttaskýringaþátt á útlensku. Ég var ekki að horfa og enn síður að hlusta. Ég var bara að gera ekki neitt. Vera ég án þess að einhver vildi eitthvað frá mér. Þegar að ég var búin að hlaða batterýin var komið að kaffitíma. Ég fór í stígvélin og setti á mig ljótu vettlingana og náði í nokkur egg út í hænsnakofa,

 

ScreenHunter_09 Apr. 13 19.15

 sinnti hænunum og bakaði nokkrar pönnukökur og svo leystum við hjónin heimsmálin yfir kaffibolla.

ScreenHunter_10 Apr. 13 19.15 

 

            Krakkarnir okkar höfðu áhveðið að nú ætti þau að koma í mat til okkar. Það þýddi að ég átti að elda eitthvað gott. Ég skil svona undir rós mál og svo skilur betri það líka. Það er hann sem kaupir kók með sykri handa þeim.

 

Annar sonurinn borðar ekki gráðaost og tengdadóttirin borðar ekki kókos. Allir borða sushi nema betri. Svo að sushi með gráðaost og kókos kemur ekki til greina. Annar  sonurinn er með smá eldunarveiki og það þarf að passa að hann fái að „búa eitthvað til“.

ScreenHunter_13 Apr. 13 19.58

Tengdadóttirinn leggur alltaf á borð. Henni finnst það gaman og  hún er líka ótrúlega góð í því. Ég elda og vel hvað á að vera í matinn. Betri gengur frá eftir mig og svo þegar það er komið að „gjöriði svo vel“. Setjast allir í sín sæti. Eftir matinn slást krakkarnir um hver eigi að vaska upp. Misskildu mig ekki, engin þeirra vill það. Betri lítur á þau ástaraugum og segir að nú sko gangi hann frá. Þau séu búin að vera svo dugleg. Hann og uppþvottavélin eru í sérlegu sambandi. Karlmaðurinn og tækið.

 

            Þegar við erum búin að spila eitthvert spil er komið að desertinum.  Hann róar líka öldurnar. Betri segir okkur endalaust að hann sé alveg rosalega lélegur í spilum. Hann vinnur okkur alltaf en við trúum honum samt þegar að hann segir að þetta hafi bara verið heppni, algjört slys! Þá er komið að því að börnin fari til síns heima og og við hjónin að sofa.

 

            Á svona venjulegum helgardegi eru mörg hlutverk í leikin. Það er eiginkonan undirgefna, frúin í silkisloppnum og svo hænsnabóndinn í stígvélunum, með ljótu vinnuvetlingana. Þessi kurteisa í pottinum og siðsama sundbolnum sem játar öllu sem betri segir (framsvið). Þessi dómharða sem heldur að allar pólskar konur sem flytja til Íslands séu fyrrverandi súludansmeyjar. Mamman og tengdamamman að gera vel við ungana og er svo dugleg að elda. Og svo þessi sem liggur og gónir (sefur?) á ekkert í sjónvarpinu, bara fyrir sig sjálfa (baksvið). Nú og svo auðvitað þessi sem horfir á afkvæmin og betri, ástaraugum að borða matinn sem hún sjálf hafði eldað. Og auðvitað verður að athuga að enginn verði útundan. Kötturinn og tengdadóttirin eru stundum i örlítilli hlutverkaspennu. Þau vilja bæði vera „Roy“. Það er þá sem að kötturinn er lokaður niðri í kjallaranum og þar má hann vera „sinn eigin Roy“ en tengdadóttirin má sitja á besta stað í sófanum.

           

           

 

           


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband