Færsluflokkur: Bloggar

Kæra megrun.

Vinsamlegast flýttu þér á áfangastað.

Afmæli-róbert-skírn-SOLLA 032


Kæra náttborð.

Þú berð þungar byrgðar.

Bókastafli 041 


Kæri kalkúni.

Þú ert draumur sérhvers manns sem er ekki að flýta sér. Maður verður að vera skipulagður í kringum þig. Taka þig á réttum tíma úr frystinum en passa um leið að þú verðir ekki "fúll" . Nudda þig að utan sem innan með sítrónu og svo aftur með salti og pipar og sérvöldum kryddum. Og svo verður auðvitað fyllingin að vera bragðgóð og falleg. Ekki með of mikið af neinu og ekki of mikil. Löðra þarf þig í sméri og vefja þig svo inní stykki svo að þú verðir ekki að svertingja á "no time" og jafnvel þurr eins og pappír. Stinga þér svo í ofninn og passa uppá að hitinn sé passlegur. Soldið eins og að vera á sólarströndu. Man samt ekki eftir að hafa heyrt um að kalkúni hafi fengið sólsting í bakarofni. En ég man nú heldur ekki allt. Þegar hér er komið sögu í elduninni er gott að vera eitthvað svona að vappa í kringum þig. Vera ekkert að fara of langt frá þér svo að maður geti ausið þig með smérinu annað slagið. Maður þarf svo sem ekkert að  sitja og bíða fyrir framan ofninn. Svo þarf að sjóða innmatinn og hálsinn af þér í potti með sérvöldu kryddunum sem áður hafa verið rædd. Meðlætið stendur prútt og bíður eftir að röðin komi að því í bökuninni. En ég hef nú samt svona undirbúið meðlætið í potti áður til að stytta bökunartímann. Og þá er komið að sósunni. Hún má ekki vera of feit og ekki of mögur. Og alls ekki yfirgnæfa þig. Sósan verður að vera svona eins og góð tengdamamma... halda sig réttu megin við línuna. Og svo má hún heldur  ekki vera eins og hún hafi gleymst í ljósum... dökkbrún... Nei, nei... bara svona ýfið dekkri en kjötið sjálft. Þegar að eiginlegum eldunartíma er lokið ertu tekin út úr ofninum og látin standa og jafna þig á meðan meðlætið er svo hitað í ofninum. Þá ertu loksins settur á fat og sparisteikaráhöldin, þessi flugbeittu, tekin fram og þá er bara að segja "GJÖRIÐI SVO VEL".

 Kalkúnn

 

 

 


Kæri sonur.

Ef þú gáir vel sérðu að þú hefur komið ríðandi til að fá þér "heitt afmælistoddý"

 "Það er laugardagskvöld, það er gleðin við völd
það var sagt mér að það væri partí hérna
sem vantar bara mig í sig. " ( Baggalútur)

016


Kæra snyrtikona.

Ég  get ekki þakkað þér nógsamlega fyrir meðferðina þarna um daginn hjá þér. Öll kremin sem ég gæti ekki með nokkru móti nefnt á nafn og þú löðraðir mig alla í. Ég var á tímabili í stórhættu. Ég hélt að ég myndi skjótast eins og raketta útúr nuddstólnum. En sennilega hefur hættan verið minni en ég ég hélt... þar sem ég lá algjörlega lömuð frá toppi til táar í upphituðum nuddstól og ekki ein einasta huxun fór um heilan á mér og algjörlega var slökt á allri líkamsstarfsemi nema ósjálfráðri öndun. Þegar ég leið út, eftir 2 tíma snurfus með kremum, hafði ég ekki nokkrar áhyggjur af ástandi mála. Hafði ekki einu sinni áhuga á hvað væri í kvöldmatinn. En borðaði nú samt af því að það er ekkert sem lækkar í mér matarlystina nema andlát mitt. Og þá þar sem ég sat fyrir framan fréttirnar datt mér í hug  að líklega væri gott að senda ríkisstjórnina í nudd. Alla eins og hún leggur sig. En ekki Davíð. Hann getur bara farið norður og niður. Eða í lagningu og ljós.

mban1349l4756_spoiled_woman_getting_a_pedicure_and_haircut_at_a_beauty_salon


Annað ljóð.

Ég vakna þennan morgun og vel að hann sé góður
vel að hann sé yndislegur, myrkur og hljóður
ég vel að kúra um stund og staðnæmast við það
hve stórkostlegt sé lífið ef fátt amar að.

Ég ákveð því að velja að vandamálin fá
vistuð séu hjá mér til þess eins að ljá
tilverunni ennþá fleiri tilbrigði og fleti
ég tek þeim opnum örmum svo nýtt mér þau ég geti.

Og eftir litla stund ég vel að fara á fætur
faðma þennan morgun og allar hans rætur
hita mér gott kaffi af kærleik þess ég nýt
kex smyr með osti í blöðin svo ég lít.

Að endingu ég segi við þig sem þetta lest
þetta er góður dagur, hafðu það sem best
ég óska þess að hugsanir fallegar þig finni
ég faðmlag þér sendi og kveð þig að sinni. 

newport-ri-windsome-bed-breakfast


Ljóð.

 

Elskuleg vinkona

Elskuleg vinkona óskir þú færð

Að vegur þinn greiðfær æ verði

Nú líkur þú hluta en áfram þó rærð

Og vísdómar meiri þig herði

 

Þú sterk ert og karakter mikill í huga

Skoðanir fastar og ákveðni duga

Eld bæði og brennistein myndir þú vaða

Fyrir ástvini þína, svo ei nái skaða

 

Undir verndarvæng tekur þú málstaðinn mjúka

Ef hallar í sorgir, um kinnar vilt strjúka

Húmorinn léttur þó aldrei er fjarri

Grátur þá víkur fyrir gleðinnar garri

 

Hláturinn smitandi lífgar og kætir

Hvar er þú ferð, hvar er þú mætir

Sem klettur í lífinu gott til að leita

Umhyggju áttu svo gott með að veita

 

Hreinskilni í orðum aldrei þó særa

Virðing er borin fyrir vininum kæra

Kærleikur mikill og faðmlagið þétt

Þér leikur í höndum er þér svo létt

 

Til hamingju vinkona mikið mér kær

Sakna þín mun ég er ferð þú mér fjær

Hugur þó beri mitt faðmlag til þín

Umvefji ástúð þig vinkona mín

 

    Matthías Henriksen

5391


Kæri morgunmatur.

Þú ert forréttindi. Það er bara þannig. Að sitja við morgunverðarhlaðborð og hafa bara allan daginn til að spá og spekúlera.... er LÚXUS. Það eru líka forréttindi að eiga vini sem nenna að færa manni mat sem hefur verið búin til með ást og umhyggju, af því sjálfu. Það er ómetanlegt. Ég fékk hugmynd af jólagjöfum til nánustu við að gúffa í mig chilli sultunni rauðu. Græn og rauð chilli sulta í sérvalinni krukku. Það er málið. Ef ég er ekki matargat... hvað þá?Ásgeir 068

Kæru karlmenn.

"Whatever you give a woman, she's going to multiply.  If you give her sperm, she'll give you a baby.  If you give her a house, she'll give you a home .  If you give her groceries, she'll give you a meal.  If you give her a smile, she'll give you her heart.  She multiplies and enlarges what is given to her.  

So - if you give her any crap, you will receive a ton of shit."

 

Og þetta er þá einhvernvegin svona á íslensku...

 

Allt sem þú gefur konu, margfaldar hún.

Ef þú gefur henni eina sáðfrumu, býr hún til barn.

Ef þú gefur henni hús, býr hún til heimili.

Ef þú kaupir í matinn, eldar hún dýrindis máltíð...

Ef þú gefur henni bros, gefur hún þér hjarta sitt...

Hún margfaldar allt sem henni er gefið.

Svo ef þú ert með stæla, hellir hún yfir þig skömmum.

Og ef þú stelur einhverju frá henni....

talar hún aldrei við þig aftur... aldrei.

pic31


Kæri sonur.

Í dag eru liðin 24 ár frá fæðingu þinni. Það var nú merkisdagur fyrir okkur bæði. Þú þráaðist við allan daginn en þegar klukkuna vantaði 8 mínútur í miðnætti varstu ofurliði borin af móður og læknum og ljósmæðrum. Já, engin má við margmenni. Eftir þessa fyrstu þolraun þína hefurðu marga fjöruna sopið og verið sjálfum þér til sóma. Ert og hefur ávallt verið hálfgert sparibarn. Alveg merkilega skapgóður og svo alveg sérlega fríður. Góður drengur í alla staði. Duglegur við það sem vekur áhuga þinn og klárar hlutina. Ert ekkert að byrja á mjög mörgu til þess eins að hætta því. Það telst til kosta. Straujar listavel og eldar enn betur, hvort sem er eftir uppskrift eða bara eftir mynd. . Varst með eindæmum fiktið barn en það læknaðist með tölvufikti. Ætlar þér eitthvað og trúir því 100%. En eitt get ég sagt þér og það er það að þú grenjaðir nánast aldrei. Ja, ekki nema þegar Skinkumyrjan kláraðist. Þá gastu sko grenjað. Guð minn góður ég hélt að þú værir stórslasaður. Og svo náttúrulega þegar þú gubbaðir á Steina greyið alsaklausan. Þá var ég nærri búin að hringja á sjúkrabíl. Vildi bara svona segja þér þetta með grenjið af því að ég veit að þú hefur haft miklar áhyggjur. Annars vona ég bara að þú eigir góðan dag og gott líf. Missir ekki sjónar á því sem er mikilvægt í lífinu og verðir ávallt þú sjálfur.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband