9.5.2008 | 00:24
Kæri garður.
Mikið ertu friðsæll og þögull svona á kvöldin. Þú verður samt að passa þig á að vaxa mér ekki yfir höfuð. Veit ekki hvort að það væri til of mikils mælst að biðja þig um að spýta upp nokkrum merkimiðum. Svona miðum sem stæði á hvað allar plönturnar og tréin heita sem þú geymir. En alls ekki verðmiðum. Ég hef ekki efni á því. Og það væri ægilega gott ef þú myndir aumkva þig yfir mig og reittir arfann alveg sjálfur. Eða viltu frekar að ég fái mér hænur sem myndu algjörlega sjá um það sjálfar? En þú veist að þær eru ekkert betri en ég í gróður greiningu og kroppa alveg örugglega í eitthvað mjög dýrmætt svona rétt í leiðinni að þær bitu hausinn af arfanum. En ég er ekkert að biðja þig að klippa tréin og runnana. Sumir hafa keypt allar græjur í það. En ég hef svona verið að spá í að lauma að þér nokkrum kryddplöntum. Heldurðu að það væri ekki skemmtilegt fyrir þig? Ég gæti potað þeim niður við hliðina á rabbabaranum og graslauknum. Og alveg klárlega ætla ég að fá mér skessujurt. Algjörlega ómissandi fyrir þig að hafa það hjá þér. Held nú samt að þú sért ekki alveg tilbúin að taka á móti þeim í þessari viku. Ég held að það sé málið. Rósmarin, Dill, Steinselja, Oregano, Basilika, Mynta, Timjan og Kóríander. Já, svona algengustu tegundir til að ég geti lauslega hent einni og einni steik á grillið og aðeins dundað mér við að krydda salatið. Ætli maður geti ræktað ólífuolíu svona í leiðinni? Þekki eina jómfrú sem gæti sett hana á flöskur fyrir mig.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.