Kæra blogg.

Ésúss minn. Ég var næstum búin að gleyma þér. Bara næstum. Æji það er svo margt annað við að vera. Svo allt í einu þá rofaði til í þokunni og ég fór og gáði hvort að það væri einhver sem er að líta hér inn.... og nú það er alltaf einhverjir... Kannski eru það bara einhverjir sem þekkja engann eða eru hættir að vinna. Eða jafnvel einhverjir sem eru ekki læsir eða þjást af drunga og vilja lyfta sér upp. Fyrir þá sem eru hættir að vinna þá er alltaf hægt að koma hingað til mín og raða í stafrófsröð í eldhússkápana og í litasetteringu í fataskápana, sko ef þið hafið ekkert að gera. Og fyrir þá sem þekkja engann þá hef ég þann óskapar galla að tala við alla um allt svo að það væri þá hægt að panta hjá mér viðtalsbil. Jafnvel hitta á mig í Kjörbúðinni.

En sko þeir sem eru ekki læsir vita ekkert um kosti mína svo að þið hin verðið að predika yfir hausamótunum á þeim. Já, þið sem þjáist af drunga! Það er aftur flóknara mál. Ef að drunginn er tilkomin af því að þið hafið verið ódæl... hættiði að vera það og reynið að vera betri manneskjur. Það er drungaminnkandi, það vita allir, fáið ykkur svo örlitla flís af 70% súkkulaði. Ef að drunginn er af óþekktri ástæðu þá er alltaf gott að lesa stefnuræðu Sjálfstæðisflokksins. Þið eigið eftir að veltast um af hlátri. Nú og ef þið eruð að leita af upplífgandi, sálarstyrkjandi, hvetjandi, nærandi, innblásturs og innihaldsríkum fagurgala um mig undirritaða, þá ertu nú aldeilis sjáðu til komin á réttan stað. Það er sko hér á þessari síðu sem ég get svoleiðis algjörlega sleppt mér í sjálfshælingum. Enda er það nú þannig að svona sjálfskrif eru oft eins og minningargrein. Ég vildi að ég gæti skrifað mína eigin minningu í nafni einhvers annars. Þá gæti ég svoleiðis bent á kosti mína með stæl. Ég myndi auðvitað byrja á því að minnast á hvað ég væri nú falleg. Svo myndi ég auðvitað minnast á það mjög fljótlega hvað ég væri vel gefin og vel lesin. Ég væri kannski ekkert að minnast á að lesturinn fælist helst í því að komast yfir sem flestar dularfullar-ævintýrasögur, ástarsögur í anda Barböru Cartlands og svo glæpasögur rétt fyrir tvítugt og fram á þennan dag. Nú og svo myndi ég auðvitað minnast á að ég bæri titilinn "móðir ársins" öll árin. Já og svo myndi ég auðvitað sverja að ég væri langbesti bakari á suðurlandi og víðar en að titlinum hefði verið náð af mér með klækjum. Kötturinn bæri svo sjálfur vitni á videói um gæði mín. Hænurnar kæmu fram á miðilsfundi og segðust hafa tekið frá hornskrifstofu í himnaríki handa mér. En sko það væri nú elskulegur og ástkær eiginmaður minn sem gæti helst borið vitni um ágæti mitt, sko ef hann hefði ekki algjörlega tapað minninu. Sem virðist þó vera svolítið gloppótt því að hann man allt nema eftir mér. Enn væri það nú skrítnara ef að hann hefði ekki skírt uppáhalds naglbítinn sinn eftir mér. Sko þennan sem hann notar til að bíta hausana af skömmunum. Já ég get sagt ykkur það að maður á að eiga til minningagrein á lager ef að maður vill koma einhverju sérstöku á framfæri. Sama hvort að það er fyrir eða eftir mans eigin dauða. Þetta á við bæði þá sem eiga á dauða sínum von og svo líka þeir sem verða allra kerlinga elstir eins og ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband